Frasar.net
Danskt–íslenskt máltæki

Um Frasar.net
Notkun frasar.net
Textadæmi
Leikur að orðum
Gagnvirkir leikir
Verkefni - leikir

Vigdísar-stofnunin
Hafa samband
Fjöldi frasa: 7561

Máltækið Frasar.net

Máltækið Frasar.net er hannað með það að leiðarljósi að auðvelda Íslendingum tjáskipti á dönsku, en það getur einnig nýst Dönum sem vilja tjá sig á íslensku.

Í Frasar.net er að finna þúsundir algengra frasa í dönsku, eins og föst orðasambönd með yfirfærða merkingu, t.d. bide i det sure æble og have ben i næsen, og samskiptafrasa, t.d. god morgen og med venlig hilsen. Hverjum frasa fylgir skýring á merkingu á dönsku, dæmi um framburð og upplýsingar um notkun. Þegar danskur frasi á sér samsvörun í íslensku, er jafnheiti kynnt til sögunnar og það skýrt á íslensku. Eigi danski frasinn sér ekki hliðstæðu í íslensku er merking hans skýrð. Við íslenska frasa er merking skýrð á íslensku. Þegar samanburður á íslenskum og dönskum frösum gefur tilefni til eru gefnar málfarslegar leiðbeiningar, sem t.d. varða merkingu, beygingu eða stíl, með Ath!.

Notendaviðmót máltækisins er bæði á dönsku og íslensku og með því að smella á íslenska eða danska fánann efst til hægri er hægt að skipta um aðaltungumál síðunnar. Sjá nánari notkunarleiðbeiningar undir Notkun Frasar.net.

Ritstjórn:
Audur Hauksdóttir, dósent Háskóla íslands, ritstjóri.
Gudrun Haraldsdóttir, verkefnisstjóri.
Peter Juel-Henrichsen, dósent, Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn.
Robert Östling, doktorsnemi í Datalingvistisk, Stokkhólmsháskóla.

Um tilurð máltækisins

Máltækið er afrakstur samanburðarrannsóknar Auðar Hauksdóttur, dósents í dönsku, á dönskum og íslenskum frösum, og er hún faglegur stjórnandi verkefnisins. Tæknileg hönnun máltækisins er unnin í samvinnu við dr. Ola Knutsson lektor og Robert Östling doktorsnema, sem báðir starfa við Stokkhólmsháskóla, og dósents Peter Juel Henrichsen frá Handelshøjskolen í Kaupmannahöfn (CBS). Guðrún Haraldsdóttir hefur lagt verkefninu ómetanlegt lið og er daglegur verkefnisstjóri þess. Aðrir samstarfsmenn hafa verið Ágústa Harðardóttir og Kristín Linda Ragnarsdóttir. Auk þess hafa pófessor Lars Brink, Dorthe Duncker lektor, Aðalsteinn Davíðsson cand.mag., Ken Farø lektor/dósent, ph.d. og Pia Jarvad, fræðimaður hjá Dansk Sprognævn, lagt verkefninu lið með sérfræðiþekkingu sinni og m.a. lesið efnið yfir og komið með gagnlegar og þarfar ábendingar.

Styrktaraðilar

Fjölmargir hafa styrkt verkefnið með beinum og óbeinum hætti. Norræna ráðherranefndin, nánar til tekið Nordplus Sprog og Kultur hefur ítrekað styrkt verkefnið, þar að auki hefur verkefnið fengið fjárhagsstuðning frá Nordisk Kulturfond, Clara Lachmanns Fond, Det Obelske Familiefond, Fondet for Dansk-islandsk Samarbejde, styrki til stuðnings dönskukennslunni, (danska menntamálaráðuneytið og íslenska mennta- og menningarmálaráðuneytið) og frá Augustinusfonden. Háskóli Íslands hefur einnig lagt sitt af mörkum til verkefnisins og fékk verkefnið m.a. þriðju verðlaun í Hagnýtingarverðlaunum Háskóla Íslands árið 2010.

Margir hafa einnig lagt verkefninu lið með óbeinum hætti. Ber þar fyrst að nefna ómetanlegt framlag Det Danske Sprog og Litteraturselskab, sem heimilaði notkun á öllu safni sínu af frösum í Den Danske Ordbog. Einnig hefur Pia Jarvad, fræðimaður hjá Dansk Sprognævn, lagt verkefninu til safn nýlegra frasa í dönsku og Politikens Forlag heimilað notkun máltækisins á dæmum úr Nudansk Ordbog.

Öllum þessum aðilum eru færðar alúðar þakkir fyrir liðveisluna.

Heimildir

Dönsku frasarnir eru að stærstum hluta fengnir úr Den Danske Ordbog (DDO), sem Det Danske Sprog og Litteraturselskab veitti góðfúslega aðgang að. Hluti nýrri frasa er sóttur í orðaforðagrunn Piu Jarvad. Safn þessara frasa var borið saman við frasa bókanna Talemåder i dansk, Ordbog over idiomer, (TID) eftir Stig Toftgaard Andersen, 2. útg., Gyldendal 2001, og Danske talemåder (DT) eftir Allan Røder, Gads Forlag, 1. útg. 1998. Bætt var í grunninn þeim frösum, sem þar er að finna, en voru ekki í DDO. Meðan á samanburðarrannsókn og þróun máltækisins stóð var frösum safnað skipulega og bætt í frasagrunninn. Þetta á sér í lagi við um samskiptafrasa, sem sjaldan er að finna í dönskum orðabókum. Allt í allt eru ríflega 3.300 orðasambönd með yfirfærða merkingu og 400 samskiptafrasar á www.frasar.net.

Upplýsingar um stíl og notkunardæmi eru að miklu leyti teknar úr DDO. Í sumum tilvikum eru notuð dæmi úr Nudansk Ordbog med etymologi (NDO), 2. útg., rafræn útgáfa, og í einstaka tilvikum úr Danske Talemåder (DT) og Talemåder i dansk (TID). Tilgreint er í sviga hvert dæmin voru sótt.

Í tengslum við útskýringar á merkingu orðtaka á íslensku er helsta heimildin: Mergur málsins (MM) eftir Jón G. Friðjónsson, Mál og menning, 2. útg. 2006. Aðrar mikilvægar heimildir eru: Íslensk orðabók á netinu (ÍO), www.snara.is, Dönsk/íslensk orðabók á netinu (DÍO), www.snara.is og Stóra orðabókin um íslenska málnotkun (SOÍM) eftir Jón Hilmar Jónsson, JPV 2005, rafræn útgáfa og Íslenzkir málshættir (ÍM), eftir Bjarna Vilhjálmsson og Óskar Halldórsson, Almenna bókafélagið, 2. útg. 1984. Tilgreint er í sviga, hvaðan heimildir eru fengnar.

Ábendingar frá notendum

Einn af kostunum við rafræn máltæki sem þetta, er að gerð þeirra þarf ekki að vera endanleg, þegar opnað er fyrir aðgang, heldur má auka og bæta verkfærið í ljósi reynslunnar. Allar ábendingar um viðbætur eða það sem betur má fara eru vel þegnar. Upplýsingar óskast sendar í tölvupósti, sjá nánar á forsíðu.

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum - Háskóla Íslands - Gimli - 101 Reykjavík - Sími 525 4191 - Fax 525 4410 - infovigdis@hi.is Háskóla Íslands